16. nóvember. 2011 02:48
Jólakort SOS Barnaþorpanna eru komin í sölu. Að þessu sinni er um þrjú mismunandi kort að ræða sem öll skarta gullfallegum myndum eftir listakonuna Ingibjörgu Eldon Logadóttur. Kortin eru skreytt með gull- og silfurfólíu og eru sérstaklega hönnuð fyrir SOS Barnaþorpin til styrktar hjálparstarfi þeirra meðal umkomulausra barna. SOS Barnaþorpin taka að sér munaðarlaus og yfirgefin börn í yfir 120 löndum og sjá þeim fyrir heimili, móður og systkinum. Þar fá börnin að búa við öryggi og hlýju þar til þau eru orðin fullorðin og reiðubúin að standa á eigin fótum. Barnaþorpin eru nú orðin 518 talsins og í þeim búa um 80.000 áður umkomulaus börn.
Samtökin sinna einnig umfangsmiklu forvarnarstarfi meðal fátækra barnafjölskyldna sem eiga á hættu að sundrast. Með Fjölskyldueflingu SOS eru innviðir fjölskyldunnar styrktir og foreldrunum hjálpað með fræðslu og stuðningi svo þeir geti sjálfir mætt grunnþörfum barna sinna með mannsæmandi hætti. Á vef samtakanna www.sos.is er úrval jólakorta til sölu. Einnig eru þau fáanleg á skrifstofu samtakanna, Hamraborg 1 í Kópavogi.
-fréttatilkynning