18. nóvember. 2011 03:59
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hvetur bæjarbúa til að koma með hugmyndir að nýrri staðsetningu fyrir áramótabrennuna í ár, en vegna tilmæla slökkviliðsins verður hún færð af þeim stað sem hún hefur verið undanfarin ár þar sem hún þykir of nálægt byggð. Einnig hefur komið upp sú hugmynd að sleppa áramótabrennu, þar sem þátttaka hefur verið dræm síðastliðin ár, og hafa í staðinn brennu á þrettándanum. “Þrettándinn markar þau tímamót að jólahátíðinni er að ljúka. Það er því ágæt hefð að hafa álfabrennu til hátíðarbrigða og kveðja jólahátíðina með blysför, tónlist og söng, álfakóng og álfadrottningu, jólasveinum og Grýlu og Leppalúða. Tilvalið værir fyrir félagasamtök að sjá um skemmtunina,” segir í tilkynningu frá bæjarstjórn. Hægt er að koma hugmyndum að nýrri staðsetningu og skoðunum um áramótabrennu eða þrettándabrennu á Gyðu Steinsdóttur bæjarstjóra á netfangið baejarstjori@stykkisholmur.is