23. nóvember. 2011 02:01
„Þeir sem best vita telja að um 30 mótorhjól séu í Stykkishólmi en nú eru 28 félagar í vélhjólaklúbbnum,“ segir Gretar D. Pálsson, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar í Stykkishólmi og einn stofnenda vélhjólaklúbbsins Griðunga en starfssvæði klúbbsins er allt Snæfellsnes. Klúbburinn var formlega stofnaður í maí síðastliðnum og Gretar er formaður og Griðungur númer eitt. Gretar segist lengi hafa haft áhuga á mótorhjólum og þá er hann einnig að gera upp hálfsextugan Chevrolet. „Ég átti mótorhjól fyrir tvítugt en hljóp alveg yfir skellinöðrutímabilið, sem margir hafa tekið sem skref inn í mótorhjólin. Ég stökk bara beint á alvöru hjólið. Svo kom hlé í þessu í áratugi en svo á síðustu árum blossaði áhuginn upp aftur og ég á nú gott mótorhjól, Yamaha 1100. Við stofnuðum þennan klúbb fyrst og fremst til að geta hópað okkur saman í ferðir á hjólunum.“
Nánar er rætt við Gretar D. Pálsson, fyrrum forseta bæjarstjórnar Stykkishólms og formann Griðunga, í aðventublaði Skessuhorns.