14. desember. 2011 12:01
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar tók á fundi sínum í vikunni undir ályktun sveitarstjórnar Skagafjarðar varðandi ráðstöfun á veiðigjaldi, en ítrekar jafnframt að gætt verði hófs við ákvörðun um gjaldtöku.
Í ályktun sveitarstjórnar sveitarfélagsins Skagafjarðar er fagnað tillögum um ráðstöfun veiðileyfagjalds frá starfshópi sjávarútvegsráðherra, er fela í sér viðurkenningu á þeirri miklu tilfærslu fjármagns sem við lýði er frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og styður þá viðleitni sem í tillögunum er að finna til að tekjurnar komi til baka, a.m.k. að hluta til. “Í tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að tekjur af veiðigjaldi skiptist þannig að 50% renni í ríkissjóð, 40% til sjávarbyggða og 10% til þróunar- og markaðsmála í sjávarútvegi. Veiðigjald verði einn af lögmætum tekjustofnum sveitarfélaga,” segir í ályktuninni, en veiðileyfagjaldið að óbreyttu tekjustofn ríkisins.
Í ályktuninni segir enn fremur að ekki síst sé þessi skipting á gjaldinu mikilvæg á tímum þar sem gríðarlegur niðurskurður á sér stað víða um land, m.a. í heilbrigðis- og samgöngumálum, á sama tíma og atvinnulífið og ekki síst fyrirtæki á landsbyggðinni eru látin bera æ meiri skattbyrði.