19. desember. 2011 10:17
Á laugardagskvöld var lögreglunni á Akranesi tilkynnt um að ekið hefði verið á gangandi vegfaranda á Kirkjubraut við Sjúkrahúsið á Akranesi. Bifreið hafði verið ekið yfir 12 ára gamlan dreng og að sögn lögreglu stakk ökumaður af frá vettvangi en gaf sig fram skömmu síðar á lögreglustöð. Var hann handtekinn og yfirheyrður vegna málsins. Drengurinn sem varð undir bílnum slapp með minniháttar áverka og var hann færður undir læknishendur þar sem gert var að áverkum. Málið er í rannsókn, en samkvæmt frásögn sjónarvotta mun atvikið hafa átt upptök sín vegna snjóboltakasts nokkurra drengja og hafi bifreiðinni verið ekið út af götunni inn á lóð sjúkrahússins með fyrrgreindum afleiðingum.