30. desember. 2011 06:48
„Feðgarnir frá Kirkjubóli í Hvítársíðu“ er tvöföld sagnaskemmtun hinna skemmtilegu sagnameistara Silju Aðalsteinsdóttur og Böðvars Guðmundssonar sem frumsýnt verður í Landnámssetrinu í Borgarnesi laugardaginn 7. janúar. Silja hefur leikinn með sögu Guðmundar Böðvarssonar og kvennanna í lífi hans. Guðmundur skáld var alla ævi umkringdur ástríkum konum en þrjár skipuðu heiðurssess í lífi hans: Móðirin Kristín Jónsdóttir skáldgyðja hans, Ragnheiður Magnúsdóttir og eiginkona hans Ingibjörg Sigurðardóttir; sólin sem kyssti hann. Í dagskrá Silju um Guðmund Böðvarsson verður athyglinni einkum beint að samskiptum hans við þessar þrjár konur og áhrifunum sem þær höfðu á líf hans og ljóð. „Í seinni sagnaskemmtuninni segir Böðvar Guðmundsson sögur úr sveit sem ekki er lengur til. Fleira vill Böðvar ekki láta uppi – en við bíðum full eftirvæntingar,“ segir í tilkynningu frá Landnámssetrinu.
Takmarkaður sýningarfjöldi er á Sagna tvíbökuna. Böðvar Guðmundsson er búsettur í Danmörku og gerir sér sérstaklega ferð til Íslands til að færa áhorfendum þessar skemmtilegu sögur. Hann heldur utan 16. janúar sem þýðir að sýningum lýkur þann 15. Eins og áður segir verður frumsýnt 7. janúar kl. 16 og kl. 20. Í fyrri sýningunni kl. 16 segir Silja Aðalsteinsdóttir frá Guðmundi Böðvarssyni rithöfundi og konunum í lífi hans en í þeirri seinni sem hefst kl. 20 segir Böðvar sögur úr Síðunni og kallar það sögur úr sveit sem ekki er til. Önnur sýning er 8. janúar og þriðji sýningardagur 15. janúar.Miðaverð er kr. 1500 fyrir eina sýningu en kr. 2000 fyrir báðar.
Hægt verður að fá sér matarmiklar súpur á milli sýninga fyrir kr. 2500 með kaffibolla og súkkulaðimola. Í boði verða hin margrómaða Seyðkonusúpa Landnámsseturs sem er tómatlöguð kjötsúpa með piparrótarrjóma og austurlensk fiskisúpa, sem er kókós- og rjómalöguð fiskisúpa.