20. febrúar. 2012 09:01
Á fundi sínum í síðustu viku samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar að bíða með hækkun fasteignaskatts á hesthús í þéttbýli sveitarfélagsins. Segir í bókun Björns Bjarka Þorsteinssonar formanns byggðarráðs að frestað verði gjalddögum skattsins meðan beðið er viðbragða efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem fjallar um þessi mál. Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, sagði til dæmis í fréttum í liðinni viku að hækkun fasteignaskatts á hesthúsaeigendur, sem framkvæmd hefur verið víða um land frá áramótum, sé ósanngjörn fyrir fólk sem stundi hestamennsku sem tómstundagaman. Meðan nefnd Alþingis hefur málið til umfjöllunar frestast gjalddagar í Borgarbyggð.
Sveitarfélögin grundvölluðu hækkun sína á niðurstöðu yfirfasteignamatsnefndar frá því í fyrra um skattlagningu á um 400 m2 hesthúsi í Árborg. Borgarbyggð hækkaði á þessum forsendum fasteignaskattsprósentuna á hesthúsaeigendur í sveitarfélaginu úr 0,36% í 1,5% samkvæmt tilmælum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hesthúsaeigendur í Borgarnesi höfðu áður mótmælt hækkununum harðlega og lögðu meðal annars fram undirskriftalista á fundi byggðarráðs í síðustu viku þar sem skorað var á sveitarstjórn að endurskoða ákvörðun sína.