10. apríl. 2012 03:08
Kolmunnaveiðar íslenskra skipa eru hafnar og nokkur skip eru þegar farin til veiða. Á vef HB Granda segir að þrjú skipa fyrirtækisins munu stunda veiðarnar að þessu sinni, Ingunn AK, Faxi RE og Lundey NS. Ingunn lét úr höfn síðustu nótt og er á leiðinni á miðin og er gert ráð fyrir því að Faxi og Lundey fari til veiðanna í kvöld eða fyrramálið. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, er veiðisvæðið nú syðst í færeysku lögsögunni en kolmunninn er um þessar mundir að ganga norður úr skosku lögsögunni inn í þá færeysku. Aflamarkið í kolmunna var aukið verulega fyrir vertíðina vegna frétta um batnandi ástand stofnsins en það er þó aðeins brot af því sem verið var að veiða ekki fyrir svo mörgum árum. Aflamark HB Granda á vertíðinni er 12.845 tonn þannig að ef vel aflast þá ætti það ekki að taka skipin langan tíma að ná kvótanum.