13. apríl. 2012 09:17
Fréttablaðið birtir í dag skoðanakönnun um fylgi frambjóðenda til forsetakjörs í sumar. Samkvæmt henni kemur ekki fram marktækur munur á fylgi Ólafs Ragnars Grímssonar og Þóru Arnórsdóttur. Þar fær Þóra 46,5% fylgi en Ólafur 46%. Aðrir frambjóðendur fá mjög lítið fylgi. Herdís Þorgeirsdóttir mælist með 2,9% en næstur kemur Ástþór Magnússon með 1,5%. Jón Lárusson mælist hins vegar með 1,2% og Hannes Bjarnason með 0,4% fylgi. Þessu til viðbótar má geta þess að þessa vikuna er í gangi skoðanakönnun hér á vef Skessuhorns. Nú að morgni föstudagsins 13. apríl er staðan þar þannig að Þóra Arnórsdóttir er með tæp 53% fylgi, Ólafur Ragnar með 34%, Herdís með 3,6% og Ástþór með 2,6%. Í könnun Fréttablaðsins gáfu 519 manns upp afstöðu sína (65% af 800 manna úrtaki), en nú í könnun Skessuhorns hafa ívið fleiri, eða 545 manns tekið þátt.