21. maí. 2012 08:01
Síðastliðinn fimmtudag var sýningin „Ég, safnarinn“ opnuð í Átthagastofu Snæfellsbæjar í Ólafsvík. Þar má sjá brot úr einkasafni margra safnara úr sveitarfélaginu. Að sögn Barböru Fleckinger verkefnastjóra var fjör og gaman við opnunina þar sem meðal annars var boðið upp á snittur. Verkefnið, sem er styrkt af Menningarráði Vesturlands, var unnið í samstarfi Átthagastofu Snæfellsbæjar og Pakkhússnefndar og var uppstilling sýningarinnar í höndum Elsu Bergmundsdóttur. Meðal þess sem má sjá á sýningunni eru bollar, fingurbjargir, dúkkur og dúkkulísur, gamlar leikaramyndir, hárgreiðsludót, servíettur, spil, skeiðar, golfkúlur, frímerki og bátamyndir, svo eitthvað sé nefnt.
Barbara segir það hafa komið sér á óvart hversu margir væru með þetta „safnaragen“ í sér. „Þegar við fórum af stað að safna söfnurum kom einnig í ljós að flestir safnarar eiga sér sterkt bakland, það er fólk sem safnar fyrir safnarana og er jafnvel spenntara fyrir söfnuninni en safnarinn sjálfur. Eitt safn getur því haft mjög margt fólk á bak við sig þrátt fyrir að opinberlaga sé aðeins einn eigandi að safninu. Þannig geta myndast mjög sterk tengsl milli fólks og er þetta hluti af því sem límir samfélagið saman,“ segir Barbara að lokum en sýningin í Átthagastofu verður opin til 28. maí.