20. maí. 2012 12:31
Nú er golf vertíðin að fara í gang og vellir landsins teknir að iða af lífi. Bárarvöllur við Grundarfjörð er þar engin undantekning. Síðasta fimmtudag var Steinar Þór Alfreðsson að spila golf á vellinum og var kominn á fjórðu holu sem er par 3 hola. Hann notar yfirleitt sjö járn á þessari holu og engin undantekning var á því í þetta skiptið. Brautin er 124 metrar og getur reynst erfið viðureignar ef slegið er of stutt. En í þessu tilfelli þegar Steinar tók upphafshöggið á brautinni þá vildi svo heppilega til að boltinn fór rakleitt í átt að flagginu og beint ofaní holuna. Hola í höggi takk fyrir og er þetta í fyrsta skiptið sem að Steinar er svo lukkulegur að ná þeim árangri.