30. maí. 2012 08:01
Björgunarsveitin OK í Borgarfirði bauð tíundu bekkingum í Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum í siglingu á Skorradalsvatni sl. mánudag. Áralöng hefð er fyrir því að OK bjóði útskriftarnemendum í ferð þegar þeir ljúka prófum að vori. Krakkarnir og foreldrar þeirra grilluðu saman í Stálpastaðaskógi og var farið í leiki áður en siglt var út á vatnið. Bæði ungmennum og foreldrum var boðið í bátsferð og á snjókött (jet-ski), en í þá ferð komu einnig björgunarsveitarmenn og bátur frá Brák í Borgarnesi.
Það var fjör að þeysa á þessum faratækjum um vatnið en vegna vinds og öldugangs gusaðist vel yfir mannskapinn. Tíundu bekkingar og foreldrar þeirra færa liðsmönnum Björgunarsveitanna OK og Brákar bestu þakkir fyrir þessa ferð.