30. maí. 2012 11:24
Opnað verður fyrir veiði í Norðurá í Borgarfirði þriðjudaginn 5. júní næstkomandi. Á slaginu klukkan sjö mun formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur vaða út á Brotið og taka fyrsta kastið. Þegar Norðurá er vatnsmikil þá liggur gjarnan lax á brotinu og oftast koma fyrstu laxarnir þaðan eða af Eyrinni. Í fyrra var það reyndar Ásmundur Helgason sem tók fyrsta laxinn á Stokkhylsbrotinu, eftir að stjórnarkonan Ragnheiður Thorsteinsson var búin að setja í lax þar en missa. Menn hafa þegar séð til laxa víða í ánum enda margir óþreyjufullir að hefja veiðarnar. Frést hefur af löxum í Elliðaánum, í Laxá í Kjós og um helgina sáu menn laxatorfu vaða inn með Seleyrinni, gegnt Borgarnesi, með látum. Þetta eru sennilega laxar á leiðinni upp í Norðurá, Grímsá eða Kjarará. Þá er lax mættur í Flókadalsá í Borgarfirði sem þykir frekar snemmt.
„Þetta veit á gott,“ segir Bjarni Júlíusson, formaður SVFR í samtali við Skessuhorn og spáir góðri veiði í sumar. „Sennilega verður ekki sett veiðimet nú í sumar, en veiðin verður ágæt og vel fyrir ofan meðaltal,“ segir hann. „Ég spái því að Laxá í Aðaldal eigi eftir að koma verulega á óvart, þar verður góð veiði og gríðarleg stórlaxafjöld. Hvað Norðurá varðar, þá verður afbragðsveiði í henni eins og venjulega og nú er komið að góðri opnun, ég spái því að þetta verði besta opnun í Norðurá á þessari öld.“
Líkt og undanfarin ár mun sérstakur veiðiþáttur verða í Skessuhorni meðan laxveiðitímabilið stendur sem hæst, eða í mánuðunum júní til og með ágúst. Þar verður lax- og silungsveiði á Vesturlandi gerð góð skil. Fyrsta Veiðihorn sumarsins verður í næstu viku, degi eftir að laxveiðitímabilið hefst.