30. maí. 2012 02:58
Freyjukórinn heldur vortónleikana „Mót sumri og sól“ í Reykholtskirkju sunnudaginn 3. júní næstkomandi. Tónleikarnir eru liður í undirbúningi kórsins fyrir Ítalíuferð þar sem sungin verða bæði ítölsk og íslensk lög eins og Viva tutte, Ma come balli bella bimba, Vikivaki, Einu sinni á ágústkvöldi og fleiri. Starf kórsins hefur verið með öflugra móti í vetur en eins og margir muna hélt Freyjukórinn söngbúðirnar Syngjandi konur á Vesturlandi þar sem djasssöngkonan Kristjana Stefáns leiddi hópinn. Söngbúðirnar voru kórnum eins og góð vítamínssprauta. Það iðar allt af lífi og óhætt að segja að það ríki gleði og kraftur í Freyjukórnum þetta vorið. Það verður enginn svikinn af að mæta í Reykholt á sunnudaginn kemur kl. 20.30 og njóta með Freyjum Borgarfjarðar.
-fréttatilkynning