31. maí. 2012 01:32
„Það kemur verulega á óvart að stærsti einkarekni fjölmiðill landsins skuli taka skýra afstöðu gegn lýðræðislegri umfjöllun í forsetakosningum þar sem einungis tveimur frambjóðendum er boðið að tjá sig í umræðuþætti Stöðvar 2 á sunnudag,“ segir Andrea Ólafsdóttir forsetaframbjóðandi um þá ákvörðun Stöðvar2 að bjóða einungis tveimur frambjóðendum til forseta að taka þátt í umræðum í sjónvarpssal. „Þessi framkoma 365 minnir okkur enn og aftur á það hversu mikilvægu hlutverki þeir gegna í hinu lýðræðislega ferli. Það hlýtur að vekja upp spurningar í hugum kjósenda hvort þessir tveir frambjóðendur [Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir] hafi það siðferðisþrek sem þeir vilja sjá í forsetaefni. Svo snemma í kosningabaráttunni, þegar heill mánuður er til stefnu er þetta stefnumarkandi ákvörðun af hálfu 365 að vilja hampa ákveðnum frambjóðendum. Ábyrgð þeirra er mikil og rökstuðningur þeirra fyrir ákvörðuninni byggir einvörðungu á niðurstöðum skoðanakannanna,“ segir Andrea Ólafsdóttir.