01. júní. 2012 11:01
Í blíðviðrinu þessa dagana er unnið að því að mála nýja álmu hjá Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi að utan. Litaval byggingarinnar hefur vakið athygli íbúa Borgarbyggðar og annarra vegfarenda en hún er máluð í mismunandi litum. Að sögn Björns Bjarka Þorsteinssonar framkvæmdastjóra DAB þá vakir fyrir stjórnendum dvalarheimilisins að hafa hlýja liti í umhverfi þess, jafnt utandyra sem innandyra. Margir hafi sýnt litavalinu áhuga sem þykir óhefðbundið. Ánægjulegt sé þó til þess að vita að val á litum veki áhuga hjá fólki á DAB. Aðspurður um stöðu framkvæmda segir Bjarki að þær séu á góðu róli. Stefnt sé að því að taka nýju álmuna í notkun um næstu mánaðarmót og upp frá því geta endurbætur á eldra húsnæði DAB hafist. Það er Byggingarfélag Borgfirðinga sem sér um framkvæmdir.