11. júní. 2012 09:01
Síðastliðinn fimmtudag ráku íbúar Snæfellsbæjar upp stór augu þegar glæsilegir fornbílar keyrðu um götur bæjarins. Var þar á ferð franski fornbílaklúbburinn „Imperial Rally“. ,,Við erum bílaunnendur og eigum fallega bíla og höfum áhuga á að heimsækja og sjá fallega staði víða um heim,“ sagði Cyril Codron, framkvæmdarstjóri klúbbsins í samtali við ljósmyndara Skessuhorns og tók fram að bílarnir í klúbbnum megi ekki vera fleiri en 20, en í þessari ferð um Ísland eru 16 bílar.
Gist var á Hótel Hellissandi og mættu margir bílaáhugamenn úr Snæfellsbæ til að skoða og taka myndir af sér við hlið þessara glæsilegra fornbíla.
Bíllinn sem vakti hvað mesta athygli var Bentley, kenndur við Blue Train, eina eintakið sem til er. Fullyrt er að hann sé sá sami og sigraði í frægu veðmáli árið 1930. „Blue Train var bíll sem tók þátt í kappakstri bíls og járnbrautarlestar og hafði Bentleyinn betur. Hann er að hluta leðurklæddur að utan og er verðmetinn á 200 milljónir króna,“ sagði Codron. Einnig vakti AC Cobra kappakstursbíllinn mikla athygli en þótt hann sé smár er í honum sjö lítra vél og hestöflin 650.