12. júní. 2012 10:21
Fulltrúar Starfsmannafélags Sements-verksmiðjunnar komu færandi hendi á lyflækningadeild sjúkrahússins á Akranesi í gærkvöldi þar sem þeir færðu stofnuninni að gjöf þráðlaust hjartalínuritstæki og lífmarkamæla því tengda. Búnaður þessi er einn af tækniþróun nútímans, en hann gerir kleift að fylgjast með hjartaheilsu allt að tíu sjúklinga á sjúkrahúsinu, meira að segja milli hæða.
Guðjón Brjánsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd stofnunar og starfsfólks. Sagði hann gríðarlega mikils virði að eiga að slíka velgerðarmenn sem starfsmenn Sementsverksmiðjunnar, sérstaklega nú á tímum skertra fjárveitinga til sjúkrastofnana. Þær ættu fullt í fangi með að endurnýja búnað og bjóða upp á það öryggi sem krafist er. HVE væri eins og margar aðrar sjúkrastofnanir í samkeppni um starfsfólk og þá væri mikilsvert að til staðar væri traustur og góður búnaður.
Á liðnum vetri var ákveðið að slíta Starfsmannafélagi Sementsverksmiðjunnar þar sem starfsmannafjöldinn hefur dregist gríðarlega saman seinni árin og þunglega þykir horfa með að sementsframleiðsla hefjist að nýju. Félagið átti í sjóði tólf milljónir króna, m.a. vegna sölu á sumarhúsi þess í Skorradal. Sex milljónum var fyrr í vetur veitt til nokkurra félaga og samtaka á Akranesi sem vinna að samfélags- og velferðarmálum. Þá var tilkynnt að eftir væri að afhenda stærsta styrkinn í þessu sambandi og fulltrúar Starfsmannafélags Sementsverksmiðjunnar voru að framfylgja þeirri áætlun þegar þeir komu á sjúkrahúsið á Akranesi í gærkvöldi.