13. júní. 2012 12:01
Með Skessuhorni, sem kom út í dag, fylgir veglegt 32 síðna sérblað tileinkað Norðurálsmóti polla í 7. flokki í fótbolta sem fram fer á Akranesi um helgina, frá 15. til 17. júní. Blaðið er gefið út í samstarfi Skessuhorns, Knattspyrnufélags ÍA og Akraneskaupstaðar. Auk hefðbundinnar dreifingar þessa vikuna er blaðinu af þessu tilefni dreift í öll hús á Akranesi og til gesta mótsins, um 1.300 fjölskyldna sem von er á. Í blaðinu má meðal annars finna viðtöl við mótshaldara, knattspyrnufólk frá Akranesi, atvinnumenn í fótbolta, gagnlegar upplýsingar um Norðurálsmótið 2012, myndir og kynningarefni um Akranes.