11. júlí. 2012 02:31
Átak í kynningu innlendrar ferðaþjónustu hefst fimmtudaginn 12. júlí næstkomandi. Átakið ber nafnið „Ísland er með´etta“ og er sameiginlegt verkefni allra markaðsstofa landsins, Ferðaþjónustu bænda, Höfuðborgarstofu og Ferðamálastofu. Með átakinu á að hvetja Íslendinga til ferðalaga innanlands og kynna fyrir þeim þær upplifanir sem landið hefur upp á að bjóða.Nýtt vefsvæði www.islandermedetta.is verður opnað sama dag. Þar gefst landsmönnum tækifæri á því að kynnar sér ævintýri og upplifanir á einstaklega aðgengilegan hátt. Eins og segir í fréttatilkynningu er vefsíðan heil gullkista af ævintýrum og upplifunum fyrir alla fjölskylduna.
„Það sem gerir hana sérstaklega væna er að þar má leita eftir landshlutum, athöfnum og árstíðum. Auk þess bjóðum við landsmönnum að senda inn sínar myndir af fjölbreyttum upplifunum sínum af landinu okkar,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri. „Íslendingar ættu hiklaust að leyfa sér að vera ferðamenn á Íslandi og greiða fyrir þjónustu og afþreyingu, fá leiðsögn um okkar einstæðu náttúru- og menningarminjar, panta gistingu og kaupa góðan mat. Ísland er kraumandi af spennandi ævintýrum fyrir alla fjölskylduna því hér er hægt að upplifa svo margt sem er alveg einstakt á heimsvísu.“
Markaðsstofa Vesturlands mun á fimmtudaginn setja í loftið undirsíður svæða á Vesturlandi á vefsíðunni www.vesturland.is. Markmiðið er að hjálpa ferðamönnum að þrengja leit sína að afþreyingu eða þjónustu við skipulagningu ferða. Þetta er samstarfsverkefni sveitarfélaga og ferðaþjónustunnar og fengu þau styrk frá Vaxtarsamningi Vesturlands.