16. júlí. 2012 10:31
Víkingur Ó. tók á móti KA í fyrstu deild karla í knattspyrnu síðastliðinn föstudag. Ólsarar voru fyrir leikinn á toppi deildarinnar með 19 stig en Akureyringar voru með níu stig að loknum jafn mörgum umferðum.
Heimamenn byrjuðu leikinn betur, voru meira með boltann og náðu að skapa sér nokkur góð færi. Snemma leiks lentu Guðmundur Magnússon og leikmaður KA saman með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi var borinn út af vellinum í sjúkrabörum og kom ekki meira við sögu í leiknum. Tafðist leikurinn verulega við atvikuð. Að öðru leyti var fyrri hálfleikurinn heldur tíðindalítill og var markalaust þegar dómarinn flautaði til leikhlés.
Bæði lið komu ákveðin til leiks í síðari hálfleik. Heimamenn áttu fjölmörg skot á markið en markmaður KA, Sandor Matus, varði þau öll, sum á heimsmælikvarða. Eina mark leiksins kom hins vegar á 54. mínútu en þar var á ferðinni David Disztl sem náði að nýta sér mistök í varnarleik Víkinga. Á 90. mínútu fengu Ólsarar tækifæri til þess að jafna leikinn þegar vítaspyrna var dæmd á varnarmann KA. Edin Beslija fór á punktinn en markmaður KA hélt uppteknum hætti og varði spyrnuna, sem þó var alveg út við stöng, stórglæsilega. Lokatölur því 0-1 KA í vil.
Víkingar eru enn efstir með 19 stig en deildin er afar jöfn að þessu sinni og því skiptir hver leikur máli. Næsti leikur Víkinga er á morgun, þriðjudaginn 17. júlí, gegn Víkingum Reykjavík á Víkingsvelli í Reykjavík.