24. júlí. 2012 10:00
Góður árangur hefur náðst í flokkun á sorpi í Snæfellsbæ. Fyrstu endurvinnslu-tunnurnar í sveitarfélaginu voru settar upp í júní og sýna nýjar niðurstöður sorplosunar að íbúar hafi tekið þeim vel. Heildar sorpmagn í síðustu losun var 10.015 kg. Skipting magnsins var þannig að heimilissorp var 5.168 kg og endurvinnanlegt sorp 4.847 kg., eða 48% af heildar sorpmagni. Að sögn Kristins Jónassonar bæjarstjóra Snæfellsbæjar þá eru niðurstöðurnar framar björtustu vonum. „Þessar góðu viðtökur gera það að verkum að mun minna magn verður urðað í framtíðinni í Fíflholtum sem aftur þýðir að við spörum töluverða fjármuni í urðunarkostnað svo ekki sé talað um hin umhverfislegu áhrif sem flokkunin hefur, því allt sem flokkað er verður endurnýtt á einhvern hátt,“ segir Kristinn.
Heilt yfir voru langflestir sem flokkuðu rétt. Þó bar örlítið á því að glerkrukkur og bleyjur rötuðu í endurvinnslutunnur, en þær eiga heima í hinni tunnunni. Á einungis tveimur stöðum í sveitarfélaginu af um 600 hirtu íbúar ekki um að flokka og var sorpið ekki tekið á þessum stöðum. Því er brýnt að íbúar Snæfellsbæjar hugi vel að flokkun sorps enda ávinningurinn augljós fyrir umhverfið og fjárhag sveitarfélagsins.