25. júlí. 2012 09:01
Með nýrri reglugerð velferðarráðherra sem tekur gildi 1. ágúst verður aukið gildissvið slysatrygginga við heimilisstörf sem Sjúkratryggingar Íslands annast. Reglugerðin felur í sér aukna tryggingavernd þar sem öll viðhaldsstörf og viðgerðir í og við heimili sem ekki eru liður í atvinnustarfsemi falla nú undir trygginguna. Áður féllu eingöngu einföld og almenn viðhaldsverkefni undir trygginguna. Einnig er sú breyting gerð að ekki er útilokað að athafnir eins og símsvörun og það að sækja póst falli undir trygginguna, séu önnur skilyrði tryggingaverndar uppfyllt. Þetta kemur fram á vef velferðarráðuneytisins.