30. júlí. 2012 10:43
Grindhvalavaða er enn á víkinni út af Leyni á Akranesi, sunnan við dvalarheimilið Höfða. Búið er að reyna að slá tölu á hvalina og er áætlað að þeir séu á þriðja hundrað talsins. Hvalaskoðunarbáturinn Hafsúlan frá Reykjavík, fullur af ferðamönnum, sigldi full nærri hvölunum um tíuleytið í morgun, þannig að styggð kom að þeim og stefndu í land. Þrír hvalir strönduðu þá í flæðarmálinu sunnan við Höfða en tveir menn á vöðlum óðu út og komu þeim til bjargar. Andrea, annar hvalaskoðunarbátur úr Reykjavík, kom einnig að vöðunni, en fór ekki eins nærri og sá fyrri. Menn á tveimur trillum reyna nú að stugga við hvölunum þannig að þeir stefni á haf út. Fjölmenni fylgist með vöðunni við Leyni og Höfða enda afar fátítt að stór hvalavaða komi svo nærri landi á Akranesi. Síðustu heimildir herma að það hafi verið árið 1928, eins og greint var frá hér í annarri frétt á vefnum í morgun.