09. ágúst. 2012 11:25
Í gær var fjögurra ára afmæli fagnað í leikskólanum Akraseli, yngsta leikskólanum á Akranesi. Skólinn þjónar íbúum í Flatahverfinu, nýjasta hverfinu í bænum. Í tilefni afmælisins var sem fyrr slegið upp grillveislu og efnt til opins húss fyrir foreldar sem fjölmenntu með börnum sínum. Þegar búið var að gæða sér á grilluðum pylsunum komu góðir gestir í heimsókn, íþróttaálfurinn og Solla stirða úr Latabæ. Var mikið fjör í Akraseli einkum þegar leið á afmælishátíðina.
Leikskólinn Akrasel var tekinn í notkun 8. ágúst 2008 og fékk viðurkenningu sem grænfána leikskóli á þriggja ára afmælinu fyrir ári. Í skólanum eru nú 130 börn í sex deildum. Starfsmenn eru 32 og er Anney Ágústsdóttir leikskólastjóri.