10. ágúst. 2012 12:53
Mikið hefur rignt á Holtavörðuheiði síðustu daga. Norðurá nýtur góðs af því og fór vatnshæð í gær upp í tæplega 16 rúmmetra en fyrir þessar rigningar var áin komin niður í tvo og hálfan rúmmetra. Í gegnum teljarann í Glanna hafa nú gengið um 1.200 laxar fram til þessa, en nokkur aukning varð í tölum þegar tók að rigna. Á vef Stangveiðifélagsins segir að það sé staðreynd að nokkur hluti göngunnar fari upp Glannafossinn sjálfan þannig að reikna má með að þessi tala sé allnokkru hærri. Ofan stigans hafa hins vegar aðeins veiðst um 160 laxar og því ljóst að Norðurá á nokkuð mikið inni hvað veiðina á dalnum áhrærir. Þar má í það minnsta finna vel rúmlega 1.000 laxa, en veiðiálag fram til þessa er því með minnsta móti og má kenna lélegum aðstæðum vikum saman um þá staðreynd.
Meðfylgjandi mynd er frá því á síðasta ári þegar laxastiginn við Glanna var lagfærður.