02. september. 2012 08:01
Nú hefur vetrardagskrá Landnámssetursins í Borgarnesi verið kynnt. „Í vetur byrjum við dagskrána á Söguloftinu með hinum bráðskemmtilega sagnaþul Óttari Guðmundssyni, geðlækni og rithöfundi í uppákomu sem hann nefnir Geðveiki í Egilssögu. Óttar sendi nýlega frá sér bókina Hetjur og hugarvíl en þar tekst hann á við hefðbundna sýn á Íslendingasögur og beitir fagþekkingu sinni á óvæntan hátt. Í uppistandi sínu á Söguloftinu beinir Óttar sérstaklega augum sínum að skálkinum og skáldinu Agli Skallagrímssyni og veltir fyrir sér geðhöfn og skapbrestum skáldsins.
Í nóvember tekur Einar Kárason við með nýjustu afurð sína „Skáld“ sem gefin verður út um miðjan október. Einar flytur efni bókarinnar, eins og honum einum er lagið. Skáld er þriðja og síðasta bókin í þríleik Einars Kárasonar um Sturlungaöldina. Sú fyrsta var Óvinafagnaður sem fjallaði aðallega um stríð Sturlungaaldar. Í annarri bókinni, Ofsa, beindi Einar sjónum að fjölskylduharmleik þessa róstursama tíma en í Skáldi er það skáldskapurinn og skáldið Sturla Þórðarson sem eru í aðalhlutverki, ásamt frænda Sturlu, Snorra Sturlusyni. Bókin er einskonar uppgjör skáldsins sem skrifaði allar helstu bækur aldarinnar.
5. janúar 2013 eru fimm ár liðin frá fumsýningu hinnar vinsælu sýningar Brynhildar Guðjónsdóttur um ambáttina Brák. Af því tilefni efnum við til fjögurra sýninga í janúar. Sú fyrsta verður á sjálfan afmælisdaginn klukkan 20. Brák er einleikur í fullri lengd eftir Brynhildi Guðjónsdóttur. Verkið var sérstaklega samið til sýninga á Söguloftinu á Landnámssetrinu í Borgarnesi. Það segir sögu Þorgerðar Brákar, fóstru Egils Skalla-Grímssonar og ambáttar Skallagríms Kveld-Úlfssonar, unnið upp úr þeim 11 línum sem fjalla um Brák í Egilssögu. Ofurhetja Brynhildur heillar áhorfendur upp úr skónum með látbragði, leikni og meistaralegum hljóðum. Hún leggur af stað í hina miklu för frá Noregi til Íslands en fer fyrst létt með að brytja niður 50 manns á þremur skipum og lágu líkin út um allt í fantagóðri mynd sem henni tekst að bregða upp í byrjun.“
Guðmundur Böðvarsson og konurnar í lífi hans. Síðastliðinn vetur fluttu Silja Aðalsteinsdóttir sérlega lifandi og skemmtilegt erindi um Guðmund Böðvarsson skáld. Hægt er að bóka þessa dagskrá fyrir hópa sem telja 30 og fleiri.
Nánari upplýsingar um fleiri uppákomur og sýningartíma er á heimasíðunni www.landnam.is
Miðasala á allar þessar sýningar er hafin og hægt að panta miða á landnam@landnam.is eða í síma 437 1600.“
-fréttatilkynning