05. september. 2012 03:01
Í lok þurrkamikils en um leið afar gróskumikils sumars, svo sem í kornrækt, trjárækt og berjasprettu, sló blaðamaður Skessuhorns á þráðinn til nokkurra bænda vítt og breitt um Vesturland. Erindið var að kanna stöðuna með heyforða fyrir veturinn. Yfirleitt var gott hljóð í bændum og á sumum svæðum mjög gott, enda heyrast jafnvel fréttir af heysölu út af svæðinu og norður í land þar sem heyskortur er á nokkrum svæðum. Í heild virðist sem vel hafi ræst úr sprettu á Vesturlandi þótt útlitið framan af sumri hafi verið dökkt. Samdóma álit bænda var að endurræktun túna og þar með bætt frjósemi í jarðvegi, hafi dregið úr áhrifum þurrkanna, einnig hafi grasspretta verið góð á mýrartúnum. „Mýrartúnin hafa nú stundum ekki verið neitt uppáhald en mikið voru þau góð í vor,” segir Sigrún Ólafsdóttir bóndi í Hallkelsstaðahlíð í Kolbeinsstaðahreppi, einn bændanna sem rætt var við, en gamli Kolbeinsstaðahreppur þar sem mikið er um melatún var það svæði á Vesturlandi sem hvað verst fór út úr þurrkunum. Á öðrum svæðum virðist uppskeran hafa verið í meðallagi og kannski yfir það, sumsstaðar mjög góð.
Staðan á Vesturlandi virðist því vera betri en á sumum öðrum svæðum landsins. Frést hefur t.d. af slæmu ástandi með uppskeru norðan- og norðaustanlands. Á þeim svæðum þurfi bændur að kaupa hey í stórum stíl og sumir bændur hafa hreinlega sagst þurfa að fækka á fóðrum eða jafnvel hætta búskap.
Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.