09. september. 2012 01:14
Tuttugustu umferð 1. deildar karla lauk í gær með þremur leikjum en aðeins tvær umferðir eru nú eftir af deildinni. Þar bar helst til tíðinda að Víkingsmenn í Ólafsvík unnu 1-0 sigur á ÍR á heimavelli og var það Guðmundur Magnússon sem tryggði snæfellskan sigur með góðu marki á 35. mínútu. Leikurinn var fyrir markið og eftir mjög harður og sóttu liðin stíft en Víkingur þó öllu meira. Nokkur gul spjöld fóru á loft og uppskar einn ÍR-ingur það rauða undir lok leiksins. Stemningin var mjög góð á leiknum og sýndu heimamenn stuðning í verki með öflugri hvatningu. Fyrirfram var ljóst að leikurinn yrði gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið. Þessi úrslit þýddu hins vegar að ÍR-ingar eru fallnir úr 1. deild en Ólsarar eru hins vegar farnir að eygja möguleika á sæti í Pepsí deildinni næsta vor því þeim nægir eitt stig úr þeim tveimur leikjum sem eftir eru. Önnur úrslit á laugardaginn opnuðu hins vegar fallbaráttuna upp á gátt, því tölfræðilega geta nú BÍ/Bolungarvík, Leiknir eða Höttur fylgt ÍR niður um deild.
„Þetta var mjög þungur leikur frá fyrstu mínútu. Við skoruðum eitt flott mark og sköpuðum nokkur færi til viðbótar. Við gerðum það sem þurfti,“ sagði Ejub Purisevic þjálfari í samtali við Fótbolti.net að leik loknum á laugardaginn.
Það eru KA-menn á Akureyri sem enn halda í veika von um að fylgja nágrönnum sínum í Þór upp um deild á kostnað Víkinga. Tölfræðilega gætu þeir jafnað stigatölu þeirra með að sigra í tveimur síðustu leikjunum ef Víkingsmenn ná engu stigi úr sínum leikjum. Í næstu umferð, sem spiluð verður nk. laugardag, taka KA menn einmitt á móti Víkingum á Akureyrarvelli og fyrirfram er öruggt að hart verði tekist á. Strax í gær hófu stuðningsmenn Víkings í Ólafsvík að safna í rútu/r til að fjölmenna norður fyrir heiðar.
Í lokaleik deildarinnar, laugardaginn 22. september, mætast hins vegar nafnarnir Víkingur R og Ó á Ólafsvíkurvelli. ,,Við reynum bara að taka næsta leik, fá stig út úr honum og síðan tökum við púlsinn eftir það,“ sagði Ejub þjálfari hógvær í gær.