10. september. 2012 06:20
Veiði í Þverá og Kjarará í Borgarfirði hefur aðeins glæðst síðustu dagana eftir að fór að rigna, en einkum þó ofantil í ánni. Holl sem var að hætta veiðum í Kjarará fékk 36 laxa en holl sem var að koma úr Þverá fékk öllu minna, einungis einn lax. „Veiðin var ágæt í Kjarará, það var fiskur víða, en Þverá er fisklítil og líklega er mest af fiskinum genginn uppeftir,“ sagði veiðimaður sem var að koma úr Kjarará en sá hinn sami fékk nokkra laxa. Árnar voru samanlagt komnar yfir 700 laxa um helgina, sem þykir ekki gott þar efra, eða um þriðjungur veiðinnar miðað við á sama tíma undanfarin ár.
Veiðitímabilinu í ánum er nú að ljúka og má búast við að þær gefi samanlagt 750 og í besta falli 800 laxa þegar upp verður staðið. Líkt og venja er til eru það landeigendur sem veiða núna í lok veiðitímabilsins í ánum en bændadögum lýkur á föstudaginn.
Það verða svo nýir leigutakar sem taka við ánum eftir þetta tímabil og lýkur um leið samfelldri nær 30 ára sögu veiðifélagsins Sporðs við ána. Nýju leigutakarnir nefna félag sitt Starir og er það í eigu Ingólfs Ásgeirssonar, Davíðs Mássonar og Halldórs Hafsteinssonar. Verður spennandi að sjá hvernig þeim félögum gengur að selja veiðileyfin næstu fimm árin, en vissulega hjálpar ekki veiðin þetta sumarið við þá markaðssetningu.