14. september. 2012 11:29
Nokkrir forystumenn í Vinstri hreyfingunni grænu framboði í Norðvesturkjördæmi héldu í gær rabbfund í Borgarnesi þar sem til umræðu var staðan í félagsstarfi flokksins í kjördæminu. Að sögn Jóns Bjarnasonar alþingismanns og oddvita VG í kjördæminu var meðal annars rætt um þá staðreynd að kjördæmisráðið hefur ekki fundað síðan fyrir alþingskosningarnar 2009. Á fundinum voru mættir fimm forystumenn flokksins í kjördæminu; Lárus Ástmar Hannesson formaður kjördæmisráðs, þingmennirnir Jón Bjarnason og Lilja Rafney Magnúsdóttir auk Gísla Árnasonar úr Skagafirði og Stefáns Ólafssonar á Blönduósi. Á fundinum kom m.a. fram að Lilja Rafney mun sækjast eftir forystusæti á lista VG fyrir kosningarnar næsta vor og þá lýsti Lárus Ástmar Hannesson forsteti bæjarstjórnar Stykkishólms því yfir að hann sæktist eftir öðru sæti á listanum. Jón Bjarnason vill hins vegar að svo komnu máli ekki tjá sig um hvort hann sækist eftir sæti á næsta framboðslista.
„Ég er á fullu í pólitík. Ætla hins vegar að bíða um sinn með að gefa yfirlýsingar um framboðsmál mín, finnst það ekki tímabært á þessu stigi. Eins og allir vita hef ég fylgt stefnu VG og er m.a. andvígur umsókn Íslands að Evrópusambandinu, grunnstefnu flokksins,“ sagði Jón Bjarnason í samtali við Skessuhorn.