01. nóvember. 2012 06:01
Námskeiðið „Hestar við leit“ var haldið á vegum Björgunarskóla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar nú um miðjan október í Borgarfirði. Námskeiðið fór fram í Þorsteinsbúð, húsi Björgunarsveitarinnar Ok í Reykholti, og að Hæl í Flókadal. Á námskeiðinu var farið yfir björgunar- og leitaraðferðir á hestum, hvar og í hvaða aðstæðum hestar henta helst til leita, útbúnað manna og hesta og verndun vísbendinga við leit á hestum. Leiðbeinandi var Tomi Finkle frá Trotsar björgunarhestahópsins í Bandaríkjunum. Hún hefur áratugalanga reynslu af björgunarstörfum og ýmis konar kennslu tengdri leit og björgun, almannavörnum og lögreglustörfum.
Alls tóku tíu björgunarsveitarmenn þátt í námskeiðinu, einn frá Færeyjum en aðrir þátttakendur komu af Vesturlandi og Suðurlandi og einn frá Bandaríkjunum. Allir stóðust mat við lok námskeiðsins og fengu svokallaða HRE vottun fyrir vikið, alþjóðlegt hæfnimat vegna leitar á hestum. HRE-matinu mætti helst líkja við smalakeppni sem snýst um allskyns þrautir svipaðar þeim sem maður og hestur gætu þurft að takast á við í útköllum. Þátttakendur voru sammála um að námsskeiðið hefði tekist vel til og sé mikilvæg viðbót við þekkingu þeirra sem eru að vinna að því að nýta hesta meira við leit og björgun á Íslandi.