02. nóvember. 2012 03:18
Fimm tilboð bárust í endurnýjun hjúkrunardeildar á 1. hæð Dvalarheimilisins Höfða á Akranesi, en tilboð voru opnuð í gærmorgun. Lægsta boð, tæpar 60,6 milljónir króna, átti fyrirtækið Alefli ehf. í Mosfellsbæ. Aðrir bjóðendur voru Sjammi ehf. Akranesi sem bauð 62,8 milljónir, Sveinbjörn Sigurðsson hf. Reykjavík bauð 66,2 milljónir, Trésmiðjan Akur ehf. Akranesi bauð 68,3 milljónir og GS Import ehf. Akranesi 70,5 milljónir króna. Kostnaðaráætlun hönnuða hljóðaði upp á 64,9 milljónir. Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða segir nú sé verið að yfirfara tilboð og muni framkvæmdanefnd ganga frá verksamningi við þann bjóðanda sem fyrir valinu verður. Verktími er áætlaður frá 12. nóvember 2012 til 12. apríl 2013.