08. nóvember. 2012 10:00
Vegna endurbóta á heitavatnslögninni frá Deildartungu verða áfram truflanir á þjónustu hitaveitunnar á Akranesi, í Borgarbyggð og Hvalfjarðarsveit í dag. Unnið er við að tengja nýjan 3,2 kílómetra langan kafla í æðina í landi Hests og Kvígsstaða. Þar hafa verið tíðar bilanir síðustu ár og því bindur Orkuveitan vonir til að þessi aðgerð bæti mjög ástand lagnarinnar og afhendingaröryggi hitaveitunnar. Orkuveitan hefur kynnt verkáætlun vegna framkvæmdanna, en tekur fram að hún getur breyst ef veður verður óhagstæðara en spár gera ráð fyrir. Í dag var rennsli um aðveituæðina stöðvað en vatn verður væntanlega komið á að nýju undir kvöld, eins og segir í tilkynningu Orkuveitunnar. Á morgun verður vatnsbirgðum svo að nýju safnað í geyma og áætlað að tengingunni verður þá lokið.
„Þessa daga verður minni þrýstingur á heitu vatni í öllum dreifikerfum á svæðinu, það er á Akranesi, í Borgarnesi, á Hvanneyri og Hagamel í Hvalfjarðarsveit. Það mun ráðast nokkuð af veðri hversu áhrifin verða mikil á atvinnulíf og þjónustu, en ljóst er að sundlaugar á svæðinu verða lokaðar þessa daga. Íbúar á svæðinu eru beðnir um að fara sparlega með heita vatnið þessa daga. Ráðlegt er að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að það kólni síður í húsum,“ segir í tilkynningu frá OR.