06. nóvember. 2012 01:36
Aðaltvímenningur Briddsfélags Borgarfjarðar hófst í gærkveldi. Til leiks mættu 17 pör svo úr varð að á einu borðinu var yfirseta. Spilaður er barómeter með forgefnum spilum. Efstir að loknu fyrsta kvöldi af fimm eru Stefán frá Kalmanstungu og Sigurður fiskifræðingur með 61% skor. Ingólfur á Lundum var í "makkersvandæðum," þar sem Jonni á Veggjum var staddur erlendis, en náði að plata ritstjóra Skessuhorns upp í Logaland sér til fulltingis. Eitthvað var ritstjórinn hræddur um að hann kynni ekki "LundaVínarkerfið," en þegar upp var staðið, eftir 24 spil, voru þeir félagar í öðru sæti með 57,9%. Þriðju urðu svo Hvanneyringarnir Sveinbjörn og Lárus með um 55% skor. Það er laust pláss fyrir áhugasamt par til að eyða yfirsetunni. Áhugasamir hafi samband við Ingimund í síma 861-5171.