06. nóvember. 2012 03:28
Á heimasíðu Víkings Ólafsvík kemur fram að Damir Muminovic hefur gengið í raðir liðsins. Damir er 22 ára gamall og spilaði með Leikni á síðustu leiktíð og hefur nú skrifað undir tveggja ára samning við Víking. Hann getur spilað bæði sem afturliggjandi miðjumaður og sem miðvörður og á að baki 94 meistaraflokksleiki þar sem hann hefur skorað sex mörk. Í samtali við Víking segir Damir að liðið sé á uppleið með frábæran þjálfara og leikmenn og að það sem heilli hann mest við Ólafsvíkurliðið sé frábær þjálfari og metnaður liðsins. Damir er leikmaður númer tvö sem gengur til liðs við Víking að undanförnu. Undir lok septembermánaðar samdi félagið einnig við Eyþór Helga Birgisson sem kemur frá ÍBV.