10. nóvember. 2012 12:08
Björgunarsveitir Slysavarna-félagsins Landsbjargar voru kallaðar út á nokkrum stöðum á landinu í gærkvöldi og í nótt vegna óveðursins sem farið hefur yfir landið. Í gærkvöldi fór ísbíll útaf á Ströndum og fóru björgunarsveitarmenn þar til aðstoðar. Ekki reyndist unnt að koma bílnum sem hafði oltið upp á veg en bílstjóra var ekið til byggða. Seint í gærkvöldi var björgunarsveitin á Suðurnesjum kölluð út þar sem þak var að rifna af húsi einu í bænum og stuttu síðar fór björgunarsveitarhópur úr Borgarfirði til aðstoðar vegfarendum á Holtavörðuheiði en þar voru aðstæður mjög slæmar.
Um miðja nótt var svo kallað út í Eyjafirði vegna bíls sem var fastur í Víkurskarði og voru þrír farþegar þar um borð.
Samskonar útkall var svo hjá björgunarsveitinni á Dalvík að ganga sex í morgun en þar var jeppabifreið með fimm farþegum föst rétt sunnan við byggðarlagið. Að síðustu var svo björgunarsveitin á Selfossi ræst út í morgunsárið vegna útlendings sem var í vandræðum á bifreið sinni á Nesjavallaleið. Öll þessi útköll björgunarsveita gekk vel að leysa.