20. nóvember. 2012 10:39
Skagaliðinu í fótbolta barst liðsauki í síðustu viku þegar markakóngur 2. deildar frá liðnu sumri, Þórður Birgisson KF, gekk í raðir ÍA. Þórður er fyrsti leikmaðurinn sem félagið fær til liðs fyrir næsta tímabil, en Þórður Þórðarson þjálfari gaf það út eftir síðasta tímabil að Skagaliðið yrði styrkt með 3-4 nýjum leikmönnum fyrir næsta tímabil.
Þórður Birgisson er ekki ókunnugur á Akranesi en hann lék með ÍA tímabilin 2002-2004. Hann hefur síðustu árin leikið í liðum fjallbyggðunga fyrir norðan og skoraði m.a. 18 mörk í 2. deildinni síðasta sumar, m.a. markið í Hveragerði sem fleytti KF upp í 1. deild. Þórður lék fyrsta leik sinn með ÍA að nýju sl. laugardag í Kópavogi. Það var fyrsti æfingaleikurinn á undirbúningstímabilinu, sem ÍA tapaði reyndar 0:1 fyrir Stjörnunni, þrátt fyrir ágætan leik og átti Þórður Birgisson m.a. tvö góð skot á mark Garðbæinga í leiknum.