21. nóvember. 2012 07:01
Í gær samþykkti ríkisstjórnin tillögu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um að veita Sjúkratryggingum Íslands heimild til samningaviðræðna við tannlækna með það að markmiði að tannlækningar fyrir börn verði niðurgreiddar að fullu. Gert er ráð fyrir að ná þessu markmiði í áföngum og að innleiðingu á nýju kerfi verði lokið í ársbyrjun 2018. Til grundvallar málinu eru tillögur unnar af starfshópi sem velferðarráðherra skipaði í sumar og hafði það að markmiði að leggja til tímabundnar lausnir vegna tannlækninga barna og hins vegar að vinna að tillögum um fyrirkomulag þessara mála til framtíðar. Stefnt skal að því að 1. janúar 2018 verði tannlækningar allra barna að fullu niðurgreiddar, að undanskildu hóflegu komugjaldi sem greitt verði einu sinni í upphafi hverrar meðferðar.
Tillögur hópsins að framtíðarskipulagi þessara mála sem ríkisstjórnin samþykkti í morgun eru eftirfarandi:
• Samið verði við tannlækna um fasta gjaldskrá fyrir öll börn.
• Í fyrsta áfanga skal stefnt að því að greitt verði að fullu fyrir almenna tannlæknaþjónustu 12-17 ára barna og þriggja ára barna, að undanskildu komugjaldi.
• Á hverju ári verði bætt við árgöngum þar til öll börn njóti niðurgreiðslna að fullu í samræmi við nýtt kerfi.
Í starfshópi velferðarráðherra sátu fulltrúar velferðarráðuneytisins, Sjúkratrygginga Íslands, Tannlæknafélags Íslands, Háskóla Íslands, Embættis landlæknis og heilsugæslunnar.