21. nóvember. 2012 09:01
Boranir eftir heitu vatni á bænum Geldingaá í Melasveit, sem staðið hafa yfir með hléum í eitt og hálft ár, báru árangur í síðustu viku þegar komið var niður á verulega heitt vatn á 657 metra dýpi. Að sögn Hafsteins Daníelssonar verktaka sem býr á Geldingaá renna nú 14 mínútulítrar upp úr holunni en frekari mælingar á hita og vatnsmagni úr henni verða gerðar eftir nokkra daga. Hafsteinn segir að þetta magn sé nóg fyrir hús og rekstur á Geldingaá, en hinsvegar sé ekki útséð með hvort frekari borarnir verði gerðar, þar skortur er á heitu vatni í nágrenninu, m.a. eru ekki nema tveir kílómetrar í Heiðarskóla frá borholunni.
Haukur Jóhannesson jarðfræðingur hefur haft umsjón með borununum á Geldingaá. Hann segir að hitinn í borholunni hafi áreiðanlega verið um 150 gráður áður en hún var kæld í síðustu viku og hitinn hafi verið að koma upp núna og sé sem stendur í 65 gráðum. Haukur telur engan vafa á því að mun meira heitt vatn sé að finna á þessu norður/suður sprungusvæði í Leirársveitinni og fleiri vatnsæðar komi í ljós við frekari borun, misheitar. Hann segir að vegna mikilla kolsýru og útfellinga þurfi varmaskipta við notkun á vatninu til kyndingar, en þeir séu ekki dýrir.
Boranir við Geldingaá hafa ekki gengið án skakkafalla. Fyrirtækið Bjarnastaðir ehf. sem byrjaði þær í fyrra fór í þrot, en þá var mikið um að kjarni brotnaði við borunina, en borað hefur verið skáhallt niður í berglögin til að freista þess að hitta á vatnsæðar. Í vor boraði Árni Kópsson niður á 440 metra og þá var komið niður á 115 gráðu hita en ekkert vatn. Vatnið skilaði sér svo í síðustu viku eftir 3-4 daga hjá bormönnum Ræktunarsambands Flóa og Skeiða.