21. nóvember. 2012 02:35
Í mars á þessu ári var skrifað undir samkomulag um stofnun svæðisgarðs á Snæfellsnesi eftir undirbúning á síðasta ári. Að verkefninu standa sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og félög sem eru samnefnarar í atvinnulífi á svæðinu, svo sem þrjú búnaðarfélög, Ferðamálasamtök Snæfellsness og Snæfell, félag smábátaeigenda, auk eins stéttarfélags, Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu. Unnið hefur verið að mótun og undirbúningi svæðisgarðsins á þessu ári. Mikilvægur hluti vinnunnar á sér stað í gegnum svæðisskipulag, sem nýtt er sem farvegur fyrir hluta af þessari vinnu. Á næstunni verða fundir þar sem þrír vinnuhópar íbúa munu halda áfram með undirbúningsstarfið og ræða mikilvæg viðfangsefni svæðisgarðs, þ.e. hvernig nýta megi auð svæðisins til frekari verðmætasköpunar.
Ragnhildur Sigurðardóttir er varaformaður svæðisskipulagsnefndar Snæfellsness. Hún segir að leitað hafi verið til hagsmunaaðila; félaga, fyrirtækja og stofnana um tilnefningar í vinnuhópana og reynt var að endurspegla samfélagið. „Einn hópurinn tekur fyrir snæfellskan náttúruauð, annar tekur fyrir snæfellskan menningarauð, sögur, landslag og fleira og sá þriðji snæfellskan mannauð, rannsóknir, þekkingu og miðlun hennar. Stýrihópur verkefnisins var sammála um að við þyrftum að finna rétta tímapunktinn til að bjóða íbúum og hagsmunaaðilum að borðinu, þegar við værum sátt við þau grunngögn sem hægt væri að leggja fram. Nú vonumst við til þess að koma grasrótarvinnunni á skrið."
Rætt var við Ragnhildi Sigurðardóttir um undirbúning stofnunar svæðisgarðs og í hvað felist í hugtakinu svæðisgarður í Skessuhorni vikunnar.