22. nóvember. 2012 07:01
Haldið var opið hús hjá Starfsbraut Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi sl. föstudag. Þar buðu nemendur til sölu ýmsan varning á litlum jólamarkaði. Í boði voru hlutir hannaðir og útbúnir af þeim undanfarnar vikur og mátti sjá að jólin réðu ríkjum í huga þeirra. Til sölu voru jólakort, jólakúlur, minnisbækur og jólaskraut af ýmsu tagi. Einnig var boðið upp á kaffiveitingar, nýbakaðar vöfflur með rjóma, Svala og kaffi gegn vægu gjaldi. Að sögn Lindu Dröfn Jóhannesdóttur kennara við starfsbraut FVA er þetta í fyrsta skipti sem haldið er opið hús. Nemendur og kennarar hafi tekið ríkan þátt í undirbúningi dagsins og hafa viðtökur verið framar vonum en fjöldi fólks lagði leið sína í skólann þennan föstudag. Margir gestir keyptu sér varning á jólamarkaðinum, en Linda segir að afrakstur af sölu dagsins verði notaður til tækjakaupa fyrir starfsbrautina. Reiknað er með að opna húsið verði árlegur viðburður á brautinni, góðar viðtökur hafi gefið fyrirheit um slíkt.