25. nóvember. 2012 09:01
Knattspyrnudeild Skallagríms í Borgarnesi hefur hleypt af stokkunum átaki á yngstu stigum yngri flokka sinna. Átakið felst í því að öllum krökkum í 1. og 2. bekk í grunnskólum á Borgarfjarðarsvæðinu og í Hvalfjarðarsveit verður boðið að æfa frítt með 7. flokki félagsins frá 1. desember nk. til febrúarloka á næsta ári. Að sögn Sigurkarls Gústavssonar hjá knattspyrnudeild Skallagríms stendur vilji deildarinnar til þess að auka knattspyrnuáhuga á svæðinu meðal yngstu krakkanna. Ríkur vilji er hjá stjórn deildarinnar að efla knattspyrnu á svæðinu og sé átakið liður í þeirri stefnu.
Æfingar fara fram tvisvar í viku í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi, á miðvikudögum frá kl. 15:30-16:30 og föstudögum frá kl. 14:30-15:30. Þjálfari flokksins verður Sólrún Halla Bjarnadóttir íþróttakennari en henni til aðstoðar verða Ísak Atli Hilmarsson, Kristgeir Jónsson og Guðrún Hildur Hauksdóttir. Auk hefðbundinna æfinga fer fram allskonar „sprell“ í átakinu til að hafa gleðina í fyrirrúmi. Í desember verður jólasprell þar sem góðir gestir munu koma í heimsókn. Foreldrasprell verður í janúar og þá verður búningasprell í febrúar. Nánari upplýsingar um átakið má finna á heimasíðu knattspyrnudeildar Skallagríms, www.skallagrimur.is/knattspyrna