29. nóvember. 2012 12:38
Aðventublað Skessuhorns 2012 kom út í gærmorgun. Því er að þessu sinni fjöldreift í öll hús og fyrirtæki á Vesturlandi með Íslandspósti. Hófst dreifing þess í gær en á að ljúka í dag, fimmtudag. Blaðið er stórt að sniðum, 120 síður og því stærsta blað sem Skessuhorn hefur gefið út til þessa. Meginþema blaðsins er ungt fólk og athafnasamt á Vesturlandi; rætt við á fjórða tug einstaklinga sem eru að gera áhugaverða hluti í námi, frístundum, íþróttum eða starfi. Landshlutinn er fullur af atorkusömu fólki eins og skýrt kemur fram í þessu blaði og framtíðin því björt að því leyti. Auk viðtala má finna almennar fréttir, íþróttir, fasta efnisþætti, dagskrá í kirkjum landshlutans á aðventu, rætt við kaupmenn og margt fleira.