29. nóvember. 2012 12:34
Síðan í haust hafa verktakar í umboði Orkuveitu Reykjavíkur unnið af krafti við lagningu nýrrar neysluvatnslagnar frá Rauðsgili sem tengja á við vatnsveitu Reykholts og Kleppjárnsreykja í Borgarfirði. Samkvæmt tilkynningu frá OR sl. sumar var tekin ákvörðun um að ljúka verkinu fyrir áramót og er því útlit nú fyrir að sú áætlun muni standast. Í gær var vatnslögnin frá Rauðsgili tengd við vatnslögnina sem lögð var milli Reykholts og Kleppjárnsreykja fyrir nokkrum árum. Þá var nýja lögnin einnig tengd við dæluhúsið sem stendur skammt frá Rauðsgili. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er nú beðið eftir dælubúnaði svo að hægt verði að taka nýju veituna í notkun og hefja dælingu inn á kerfið. Þegar framkvæmdum lýkur sér fyrir endann á margra ára neysluvatnsskorti á svæðinu, en neysluvatn hefur eins og kunnugt er iðulega þrotið í mestu þurrkum.