29. nóvember. 2012 03:43
Leikið verður í Dominos deild karla í kvöld eftir stutt hlé vegna úrslitakeppni Lengjubikarsins sem fram fór um síðustu helgi. Heil umferð fer þá fram, alls sex leikir. Snæfell, sem nú trónir á toppi deildarinnar með 12 stig, á útileik fyrir höndum gegn Keflvíkingum. Skallagrímsmenn eiga hins vegar heimaleik í Borgarnesi gegn liði Stjörnunnar í Garðabæ, sem er í öðru sæti deildarinnar. Skallagrímur er með 6 stig og er í sjöunda sæti. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15 og má geta þess að leikur Skallagríms og Stjörnunnar verður sýndur í beinni útsendingu á vefnum SportTV. Fylgjast má með útsendingunni hér.