02. desember. 2012 11:51
Snæfellsstúlkur tóku á móti Keflavíkurdætrum í gær, laugardaginn 1. desember, og áttu þar möguleika á að binda enda á sigurgöngu Keflvíkinga í deildinni. Fyrir leik var Keflavíkurliðið ósigrað með 22 stig en Snæfell í öðru sæti með 18 stig. Mikill hraði og barátta var í leik Snæfells í fyrsta leikhluta og virtust þær ætla að stinga andstæðinga sína af strax í byrjun. Keflvíkingar komu þó til baka, eins og við var að búast, og í hálfleik leiddi Snæfell með einu stigi, 37 - 36. Leikurinn var jafn fram í miðjan þriðja leikhluta en þá tóku þær keflvísku af skarið og settu niður "stórar" körfur og komust í tíu stiga forystu fyrir síðasta fjórðunginn. Snæfellsstúlkur börðust fyrir sínu af krafti, náðu að vinna upp muninn og þegar 13 sekúndur voru eftir, og staðan 70 - 72, átti Snæfell sókn sem gat gert út um leikinn þeim í vil. Hildur Björg tók þriggja stiga skot sem geigaði og í kjölfarið var brotið á Söru Rún sem setti bæði vítaskotin niður og úrslit leiksins urðu 70 - 74.
Þrátt fyrir tapið átti Snæfell góðan leik og sýndu að þær verða áfram í baráttunni um efsta sætið í deildinni. Stigahæstar í liði Snæfells voru Kieraah Marlow með 21 stig og 14 fráköst, Hildur Björg og Alda Leif með 14 stig og Hildur Sigurðardóttir með 11 stig. Hjá Keflavík var Jessica Ann með 21 stig og þær Pálína Gunnlaugsdóttir og Birna Valgarðsdóttir með 20 stig hvor.