05. desember. 2012 08:01
Körfuknattleiksdeild ÍA, Mostri í Stykkishólmi og Víkingur í Ólafsvík tóku öll þátt 32-liða úrslitum Powerade bikars karla í körfubolta og var á brattann að sækja fyrir liðin sem töpuðu í sínum leikjum.
Mostramenn sem leika í 2. deild karla fengu lið Augnabliks frá Kópavogi í heimsókn í Stykkishólm á föstudaginn. Jafnt var með liðunum framan af leik en gestirnir sigu fram úr þegar leið að hálfleik. Þeir héldu forystunni allan leikinn og sigruðu að endingu með níu stigum, 75:66. Stigahæstur í liði Mostra var Daníel Kazmi með 14 stig en á eftir honum komu Árni Ásgeirsson og Gunnlaugur Smárason, spilandi þjálfari liðsins, með 13 stig hvor.
Víkingur Ólafsvík, sem einnig leikur í 2. deild, mætti b liði Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði á laugardaginn. Um erfiðan leik var að ræða fyrir Víking og höfðu heimamenn yfirhöndina allan leikinn. Lokatölur urðu 76:55 fyrir Hauka. Stigahæstur Ólsara var Guðni Sumarliðason með 18 stig en á eftir honum komu þeir Sveinn Guðmundsson, Sigmar Stefánsson og Jón Frímann Eiríksson, allir með 8 stig.
Þá lék 1. deildarlið Skagamanna í Hveragerði gegn liði Hamars á föstudaginn. Skemmst er frá því að segja að Skagamenn sáu ekki til sólar í þessari Hveragerðisför og uppskáru stórt tap gegn sprækum Hamarsmönnum, 110:68. Hörður Nikulásson var stigahæstur í liði ÍA með 19 stig en á eftir honum kom Lorenzo Lee McClelland með 15.