06. desember. 2012 02:01
Dagný Rún Þorgrímsdóttir er 17 ára gömul og er fædd og uppalin í Stykkishólmi. Hún stundar nú nám í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og er á öðru ári á félagsfræðibraut. Dagný lærði ung að prjóna og hefur gert mikið af því ásamt því að sauma ýmislegt. „Það er misjafnt hvað ég hef verið að prjóna. Ég ákvað tveimur dögum fyrir brúðkaup bróður míns að mig vantaði ermar við kjólinn minn og þá saumaði ég þær. Annars hef ég mest prjónað lopapeysur og hef gert alveg helling af þeim,“ segir Dagný sem þrátt fyrir það hefur einungis prjónað eina flík á sig sjálfa.
Lærði að sauma og prjóna af ömmu sinni
Dagný lærði ung að prjóna og sauma. „Amma kenndi mér þetta bæði. Hún var saumakennari í Stykkishólmi og þegar ég var fjögurra ára fékk ég fyrst að prófa að prjóna. Þá var ég alltaf að leika mér hjá henni við að prófa að sauma og prjóna. Fyrsta húfubandið prjónaði ég fjögurra ára,“ segir Dagný. „Í saumum í skólanum þegar ég var yngri var ég á fullu bæði að prjóna og sauma og á meðan hinir voru að rembast við að gera einn ullarsokk var ég að gera lopapeysur og kjóla. Ég notaði einu sinni enda sem ég átti frá öðru sem ég hafði verið að gera til að prjóna marglita húfu fyrir mömmu. Ég þæfði hana líka og hún er svo gott sem skotheld. Ég hef ekkert lært prjónaskap nema í grunnskóla en ég hef fengið prjóna- og saumabækur í jólagjafir,“ segir Dagný.
Rætt er við Dagnýju Þorgrímsdóttur í þættinum Handverk og list á Vesturlandi í Skessuhorni vikunnar.