06. desember. 2012 12:01
Miðvikudaginn 12. desember nk. ætla nemendur í Grundaskóla á Akranesi að standa fyrir söfnun fyrir fátækt fólk í landinu Malaví í suðaustur hluta Afríku. Nemendur verða með markað í sal Grundaskóla þar sem munir eftir þá verða boðnir til sölu. Markaðurinn fer fram frá kl. 12-13:30 og rennur allur ágóði af honum til söfnunarinnar. Nemendur Grundaskóla hafa staðið fyrir sambærilegri söfnun síðastliðin tíu ár en með henni vilja þeir bæði styðja við fólk í neyð og styrkja vitund sína um mannréttindi og hjálparstarf. Í tengslum við söfnunina vinna nemendur verkefni sem tengjast hjálparstarfi og verður aukin áhersla lögð á fræðslu um mannréttindi og lýðræði í kennslu. Góðir gestir munu heimsækja skólann og fræða nemendur um hjálparstarf, þau Gunnar Salvarsson og Kristín Björk Lárusdóttir sem bæði hafa fengist við sjálfboðastörf í þróunarvinnu í Afríku. Allir eru boðnir hjartanlega velkomnir í Grundaskóla þennan dag en auk markaðarins verða fjölbreytt skemmtiatriði í boði.